Leikur að bókum

Leikur að bókum er aðferð til að vinna með barnabækur þannig að börnin leiki söguna og prófi öll hlutverkin í henni. Síðastliðin 10 ár höfum við starfssystir mín Birte Harksen haldið úti vefsvæði þar sem sjá má dæmi um hvernig við höfum notað aðferðina. Endilega skoðið vefinn!

Birte- og Immustundir

Á Covid-tímanum höfum við Birte starfssystir mín gert nokkra þætti fyrir leikskólabörn sem við köllum Birte- og Immustund. Þar blöndum við saman tónlist og frásögn og tökum eitt þema fyrir í hverjum þætti.

Storytime @ 9 – Indverskar sögustundir

Bakul Foundation er menningarstofnun fyrir börn í Bhubaneswar á Austur-Indlandi. Í heimsfaraldrinum hefur hún staðið fyrir vikulegum sögustundum í beinni útsendingu á YouTube og Facebook með sögumönnum frá öllum heimshornum. Það var mér mikill heiður að fá að taka þátt í þessu verkefni og segja indverskum börnum söguna af Búkollu 9. janúar 2021 – og kynna Ísland svolítið fyrir þeim í leiðinni.

Earth Up – Go to Sleep, Gecko

Ég er meðal þeirra sem segja sögur eftir Margaret Read MacDonald á netviðburðinum Earth Up sem miðar að því að efla umhverfisvitund barna. Ég tek þátt í að segja söguna „Go to Sleep, Gecko“. Viðburðurinn mun eiga sér stað í apríl 2021.

Borgarbókasafnið og Norræna húsið

Undanfarin ár hef ég verið með sögustundir fyrir börn í Borgarbókasafninu og Norræna húsinu í sambandi við bókmenntahátíðir og álíka viðburði. Eðlilega hefur þó orðið hlé á slíku að undanförnu vegna Covid.